logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

ÁKVEÐIÐ AÐ GERA ÚTTEKT Á ÖLLU SKÓLAHÚSNÆÐI BÆJARINS

21.03.2019 15:59

ÁKVEÐIÐ AÐ GERA ÚTTEKT Á ÖLLU SKÓLAHÚSNÆÐI BÆJARINS

Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 20. mars var tillaga fulltrúa D- og V- lista um úttekt á rakaskemmdum í öllu skólahúsnæði Mosfellsbæjar samþykkt einróma.
Tillagan var eftirfarandi:
„Fulltrúar D- og V- lista leggja til að umhverfissviði verði falið að láta framkvæma skoðun á öllu skólahúsnæði Mosfellsbæjar m.t.t. rakaskemmda og hugsanlegs örveruvaxtar tengdum þeim. Ef fram koma merki um örveruvöxt í þeirri skoðun verði strax gerð áætlun um úrbætur og ráðist í þær.
Þrátt fyrir þær þrjár úttektir sem Efla hefur gert á húsnæði Varmárskóla og úrbætur í kjölfar þeirra eru enn uppi efasemdir í skólasamfélaginu í Mosfellsbæ um að nóg sé að gert.
Því er mikilvægt að fyrsta verkefni tengt þessari skoðun verði að ráðast í heildstæða úttekt á Varmárskóla og mæla loftgæði þannig að ekki leiki vafi á að húsnæði skólans mæti kröfum sem gerðar eru til skólahúsnæðis.“

Á bæjarstjórnarfundinum kom fram breytingartillaga um að bæjarstjórn stæði sameiginlega að tillögunni og var tillagan ásamt breytingartillögunni samþykkt með 9 atkvæðum allra bæjarfulltrúa.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar:
„Að undanförnu hafa verið miklar umræður um raka og mögulegan örveruvöxt í skólahúsnæði á Íslandi. Í hverjum skólanum á fætur öðrum hafa verið fréttir af rakavandmálum og í einhverjum tilvikum hefur örveruvöxtur náð sér á strik.
Við hjá Mosfellsbæ höfum alltaf tekið hlutverk okkar á sviði skólamála alvarlega og viljum vera eins viss og frekast er unnt um að okkar húsnæði sé í góðu lagi. Á þessu stigi höfum við engan sérstak grun um vandamál á þessu sviði en viljum leita af okkur allan grun.
Í vinnu okkar við viðhald og rekstur Varmárskóla hafa greinst þrír afmarkaðir staðir þar sem örveruvaxtar hefur orðið vart og hefur verið brugðist við þeim vanda. Næsta skref í því húsnæði er því að ráðast í heildstæða úttekt á Varmárskóla og mæla loftgæði þar enda má engin vafi ríkja um heilnæmi skólahúsnæðis í Mosfellsbæ. Við munum leggja okkur fram við að halda öllum upplýstum um framgang mála.
Ég fagna því sérstaklega að um næstu aðgerðir í þessum málum ríki góð sátt að meðal allra bæjarfulltrúa.“

Nánari upplýsingar veitir:

Arnar Jónsson, forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar í síma 840-1244 eða í gegnum netfangið arnar@mos.is


Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira