logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Regnbogastrengir - Fiðlunám í Helgafellsskóla

31.08.2021 12:04

Listaskóli Mosfellsbæjar býður upp á fiðlunám með nýju fyrirkomulagi í Helgafellsskóla. Verkefnið, sem kallað er Regnbogastrengir, fer þannig fram að nemendur hitta fiðlukennara sinn fjórum sinnum í viku á skóla- eða frístundartíma, þrisvar sinnum í 15 mínútna einkatíma og einu sinni í hóptíma. Á milli tíma geyma börnin hljóðfærin í skólanum en fá svo að taka þau með sér heim um helgar og í lengri fríum.

Það að nemendurn hitti kennara svo oft í vikunni tryggir gott utanumhald og hjálpar til við að byggja upp góðan grunn í hljóðfæranáminu. Félagslegi þátturinn, hóptímarnir, eru inni í töflu frá byrjun. Þar hitta börnin hvert annað með hljóðfærin sín, spila saman og fara í tónlistartengda leiki undir leiðsögn kennara síns.

Fátt þjálfar tóneyrað eins vel og nám á strengjahljóðfæri, þar sem nemandinn þarf að hlusta mjög vel eftir hreinum tón sem hann þarf sjálfur að ná fram út frá heyrn og færni og auk þess þjálfar fiðlunám sérstaklega fínhreyfingar, næmni og vandvirkni.

Listaskólinn býður hljóðfæri til leigu gegn vægu gjaldi fyrir þau börn sem innritast í Regnbogastrengjahópinn. Þar sem Regnbogastrengir er verkefni sem er enn á mótunarstigi verður það til að byrja með eingöngu í boði fyrir nokkur börn í Helgafellsskóla og munu börn sem eru á biðlista inn í Listaskólannskólann hafa forgang.

Kennari Regnbogastrengja er Íris Dögg Gísladóttir fiðluleikari og kennari. Íris hefur áralanga kennslureynslu og hefur verið virkur þátttakandi í tónlistarlífinu.

Hér má sjá mismunandi myndbönd af krökkum á mismunandi aldri spila á fiðlurnar sínar.

Skráning fer fram í gegn um íbúagátt Mosfellsbæjar en ef börnin eru þegar á biðlista inn í Listaskólann eru foreldrar beðnir um að senda tölvupóst til staðfestingar á listaskoli@mos.is.

Hægt verður að halda plássi sínu á biðlista inn á önnur hljóðfæri áfram.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira